Íslensk stjórnvöld eiga enn í viðræðum við Breta og Hollendinga um lausn Icesave-málsins og vonast til þess að hægt verði að finna ásættanlega lausn áður en til þjóðaratkvæðagreiðslu kemur. Þetta er haft eftir Kristjáni L. Möller, samgönguráðherra, á fréttaveitu Dow Jones.
Ummæli Kristjáns féllu á ráðstefnu í Mílanó þar sem hann var staddur ásamt Þóri Ibsen, sendiherra Íslendinga í Frakklandi. Í frétt Dow Jones er bent á að ummæli ráðherrans sé ekki í samhljóman við yfirlýsinguna sem fjármálaráðuneytið sendi frá sér í gær en þar kom fram að gert hefði verið hlé á viðræðum án þess að endanleg niðurstaða lægi fyrir og að Íslendingar muni nú ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu 6. mars nk. og greiða atkvæði um skilmála fyrirliggjandi Icesave-samnings.