Þyrlan sótti slasaðan

Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan í Svínadal.
Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti slasaðan í Svínadal. Kristinn Ingvarsson

Ungur maður um tvítugt slasaðist í bílveltu sem varð við Dalsmynni í Svínadal um kl. 18.00 í kvöld. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti þann slasaða og flutti á sjúkrahús í Reykjavík. Sá sem slasaðist var einn í bílnum að sögn lögreglunnar á Blönduósi.

Slysið varð í beygju þar sem hátt er fram af veginum. Svo virðist sem ökumaðurinn hafi misst jeppann sem hann var á fram af veginum og endaði hann á hvolfi ofan í árfarvegi sem var frosinn.

Ökumaðurinn fékk höfuðáverka. Hann missti líklega meðvitund við slysið en rankaði við sér nokkru síðar og gat hann þá látið föður sinn vita. Talið er að hann hafi legið rotaður í bílflakinu í um hálftíma.

Vegna áverka þess slasaða var ákveðið að kalla eftir þyrlu og láta flytja hann til Reykjavíkur. Hann var fluttur með sjúkrabíl til móts við þyrluna. Hún lenti á þjóðveginum í Vatnsdal og tók við sjúklingnum. 

Veginum var lokað á meðan og sagði lögreglan á Blönduósi að vegfarendur hafi verið mjög tillitssamir vegna þess. Kann hún þeim bestu þakkir fyrir. 

Bíllinn er gjörónýtur eftir slysið, að sögn lögreglunnar. 

Samkvæmt upplýsingum frá stjórnstöð Landhelgisgæslunnar fór þyrlan frá Reykjavík kl. 18.51 og lenti við Landspítalann í Fossvogi kl. 20.55 með hinn slasaða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert