Upplýst verði um eignarhald fyrirtækja

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir
Guðfríður Lilja Grétarsdóttir mbl.is/Eyþór

Hlutaskrár bæði hlutafélaga og einkahlutafélaga verða öllum opnar og aðgengilegar, nái frumvarp sem þingmenn þriggja flokka hafa lagt fram á Alþingi. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, þingflokksformaður Vinstri grænna er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins, sem gerir ráð fyrir því að Fjármálaeftirlitinu verði skylt að birta skrá yfir hluthafa í bönkum og öðrum fyrirtækjum, sem varðveita eignarhluti sína á safnreikningum fyrirtækja í verðbréfaþjónustu.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að hulið eignarhald og flókin hagsmunatengsl fárra viðskiptablokka virðist hafa mótað starfsemi íslenskra fjármálafyrirtækja undanfarin ár með skelfilegum afleiðingum fyrir land og þjóð. Því sé ljóst að nú þurfi að gera auknar kröfur um gagnsæi eignarhalds, enda óljóst hvað eigi að vera því til fyrirstöðu að hluthafar gangist opinberlega við eignarhaldi sínu.

Ekki virðist hafa verið ljóst í aðdraganda hrunsins, hverjir raunverulegir eigendur fjármálafyrirtækja voru. Tengslin hafi verið hulin og með hliðsjón af lögbundnu hlutverki Fjármálaeftirlitsins hljóti Fjármálaeftirlitið að verja tíma í að átta sig á innbyrðis tengslum lögaðila til að finna raunverulega eigendur fyrirtækjanna.

„Leynd og ógagnsæi er hluti af hruninu og hluti af spillingu, auk þess sem það skaðar skattheimtu í garð þeirra sem mest ber að greiða til samfélagsins,“ segir Guðfríður Lilja.

Samkvæmt núgildandi lögum einskorðast aðgangur að hlutaskrám við hluthafana sjálfa og stjórnvöld. Stjórnir hlutafélaga eru auk þess ekki skyldugar til að uppfæra hlutaskrárnar þegar eigendaskipti verða að hlut, nema um það berist tilkynning frá seljendum eða kaupendum.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert