„Ég er mjög kátur með að þessum áfanga sé lokið í bili þó þetta hafi tekið langan tíma. Nú getur málið færst á næsta stig,“ segir Ólafur Adolfsson, apótekari í Apóteki Vesturlands á Akranesi, um úrskurð Samkeppniseftirlitsins sem birtur var í dag. Spurður hvað hann eigi við með næsta stig segist Ólafur ekki útiloka að höfða einkamál vegna þess tjóns sem hann hafi orðið fyrir af hálfu forsvarsmanna Lyfja og heilsu. Tekur hann fram að mjög óeðlilegt sé að mál þurfi að taka svona langan tíma í vinnslu.
„Ég er með það ágætlega kortlagt hvaða ráðstafanir ég þurfti að gera til þess að takast á við þessa óvægnu samkeppni ef samkeppni skyldi kalla. Þetta er í raun ekki samkeppi heldur tilraun til þess að bola mér út af markaðnum eins og ég benti á á sínum tíma,“ segir Ólafur og bætir við: „Þeir eru ekkert hættir hjá Lyf og heilsu. Samkeppnin heldur áfram og ég er enn á kafi í stríðinu vegna þess að þetta mál nær til birgja. Það er ekki eins og það hafi verið skorið á það með þessum úrskurði. Það er fullt af fyrirtækjum sem ég er að glíma við þar sem ég nýt einfaldlega ekki sömu kjara og Lyf og heilsa en er samt bundin við að selja þeirra vörur. “
Í samtali við mbl.is sagðist Ólafur enn ekki hafa haft tíma
til þess að kynna sér efni dómsins þar sem hann hafi verið á kafi í
vinnu í allan morgun.
„Ég geri ráð fyrir að kvörtun mín hafi verið á rökum reist og ég vissi það alveg fyrir. Miðað við upphæð sektarinnar þá finnst mér nú líklegt að þeir hafi fundið eitthvað meira heldur en það sem ég var að kynna.“