Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, segir mikilvægt að á þessum erfiðu tímum að okkur takist að skapa þann skilning í samfélaginu og meðal ráðamanna á því, að nú þegar Ísland stendur á krossgötum sé Háskóli Íslands og háskólarnir í heild ekki viðfangsefni til niðurskurðar heldur lykill að lausn vandans.
En til
þess þarf getu til að hugsa stórt. Það
örlar á þeirri hugsun í íslensku samfélagi, eftir atgang síðustu missera, að
við megum ekki lengur leyfa okkur að hugsa stórt. Þetta eru sennilega eðlileg viðbrögð við því
sem á undan er gengið, sagði Kristín við brautskráningu í dag. Tæplega 500 kandídatar voru brautskráðir frá Háskóla Íslands í dag en athöfnin fór fram í Háskólabíói. Kandídatar voru brautskráðir af öllum fræðasviðum Háskólans með 482 prófgráður.
Karl hélt nýlega fyrirlestur á málþingi menntamálaráðuneytisins þar sem hann lýsti áherslum í starfi Karolinska háskólans. Eftir fyrirlesturinn var Karl spurður hvernig Ísland og Háskóli Íslands ættu að byggja upp til framtíðar. Karl lagði áherslu á tvennt:
„Í fyrsta lagi sagðist hann telja að stjórnvöld ættu að leggja megináherslu á fjármögnun vísinda og menntunar, með sama hætti og stjórnvöld í Finnlandi gerðu í kreppunni og eins og sænsk stjórnvöld eru að gera í dag.
Í öðru lagi sagði hann að Háskóli Íslands ætti, líkt og Karolinska, að miða hátt og hlúa að því sem best er gert.
Karl lagði áherslu á að stærð þjóðar eða háskóla skipti engu máli hvað varðar markmiðasetningu og líkur á árangri. Hann sagði máli sínu til stuðnings frá vísindamanni sem starfaði í litlu samfélagi í afskekktum bæ í Finnlandi. Sem áhugamaður um fjallgöngur hafði maðurinn sérstakan áhuga á að bæta símsamband í fjalllendi í austurhluta Finnlands, nálægt rússnesku landamærunum. Í leit að lausn kviknaði hugmynd sem varð kveikjan að Nokia farsímum.
Boðskapur sögunnar var tvíþættur. Annars vegar að stórar hugmyndir geti orðið að veruleika í litlum samfélögum. Í öðru lagi að lykillinn að því að þessi hugmynd varð að mikilvægum þætti í efnahagslegri uppbyggingu í Finnlandi, var að vísindamaðurinn starfaði í umhverfi sem byggt hafði verið markvisst upp til að styðja þekkingarleit af þessu tagi.
Sagan er áminning til okkar um, að það uppsker hver sem hann sáir. Ef við stöndum rétt að uppbyggingu og stuðningi við háskólana sköpum við frjóan jarðveg fyrir nýsköpun af öllu tagi," sagði Kristín í ræðu sinni í dag.