Skipasmíðastöðin er ónýt

Nýja varðskipið Þór er í smíðum í Chile. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar …
Nýja varðskipið Þór er í smíðum í Chile. Starfsmenn Landhelgisgæslunnar hafa verið þar til að líta eftir smíðinni. mbl.is

Skipasmíðastöðin ASMAR í Chile er ónýt, samkvæmt upplýsingum Landhelgisgæslunnar. Varðskipið Þór er á floti í kvínni og skip Ísfélagsins stendur uppi. Unnið er að því að koma íslenskum starfsmönnum LHG, þeim Ragnari Ingólfssyni og Unnþóri Torfasyni, heim frá Chile við fyrstu hentugleika.

Reynt verður að opna flugvöllinn í Concepción á morgun, mánudag kl. 11:30 að staðartíma eða kl. 14:30 að íslenskum tíma, samkvæmt frétt á heimasíðu Landhelgisgæslunnar.

Ekki er víst að það takist að opna flugvöllinn á tilsettum tíma en Landhelgisgæslan mun kosta kapps um að koma mönnunum heim.

Landhelgisgæslan hefur fengið upplýsingar um að skipasmíðastöðin sé ónýt en að varðskipið Þór sé á floti í flotkvínni. Ísfélagsskipið stendur uppi en hafrannsóknarskip sem var þar við hliðina er horfið og líklegast sokkið.

Ekki er fært um borð í Þór og því ekki vitað nánar um ástand skipsins en svæðið er allt lokað og talið hættulegt enn sem komið er. Forsvarsmenn skipasmíðastöðvarinnar eru að meta stöðu mála í samráði við tryggingarfélög sín.

Frétt Landhelgisgæslunnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert