Íslenskir starfsmenn Landhelgisgæslunnar eru heilir á húfi og eins danskir starfsmenn gæslunnar í Chile. Voru þeir við vinnu í borginni Concepcion þar sem unnið er að smíði nýs varðskips Landhelgisgæslunnar. Í gærkvöldi náðist samband við Danina og í nótt við Íslendingana.
„Þær gleðifregnir voru að berast rétt í þessu að tveir íslenskir starfsmenn Landhelgisgæslunnar í Chile eru heilir á húfi og við góða heilsu,“ segir Hrafnhildur Brynja Stefánsdóttir, Upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, í fréttatilkynningu.
Sagt var frá því í gær að sjö starfsmenn Landhelgisgæslunnar, tveir Íslendingar og fimm Danir, væru í borginni Concepcion, skammt frá skjálftanum mikla sem varð í gærmorgun. Um kvöldmatarleyti fengust þær fregnir að eiginkona eins Dananna hafði heyrt í honum í gegnum tölvupóst, og gat staðfest að allir Danirnir væru heilir á húfi.
Í fréttatilkynningu gæslunnar segir að Íslendingunum hafi tekist að komast í örstutt símasamband, en sambandið hefur verið slæmt frá því skjálftinn reið yfir. „Þeir eru nú staddir í Concepcion og verður nú unnið að því að koma þeim heim til Íslands eins fljótt og verða má.“
Jafnframt segir að borist hafi óstaðfestar fregnir af því að varðskipið Þór hafi sýnt krafta sína og styrk og staðið af sér jarðskjálftann.