Fulltrúar kristinna trúfélaga á höfuðborgarsvæðinu ætla að koma saman til stuttrar bænastundar á Austurvelli n.k miðvikudag, 3. mars, kl. 12:30. Tilgangurinn er að biðja fyrir þjóðinni og ráðamönnum hennar. Með því vill hópurinn undirstrika að kristið fólk ber hag þjóðarinnar mjög fyrir brjósti.
Hópurinn hefur hist í hádeginu á miðvikudögum í Friðrikskapellu í rúmlega eitt og hálft ár til að biðja fyrir íslensku þjóðinni, velferð hennar og lausn á margvíslegum vanda. Bænastundirnar hófust tveimur mánuðum fyrir hrun og hafa haldið áfram síðan, að því er segir í fréttatilkynningu.