Herferð til að beina athyglinni að þeirri hættu sem ungmennum stafar af notkun ljósabekkja er nú að hefjast. Fræðsluherferiðin er farin undir slagorðinu „Hættan er ljós“ að því er fram kemur á vef Landlæknisembættisins.
Félag íslenskra húðlækna, Geislavarnir ríkisins, Krabbameinsfélagið, Landlæknisembættið og Lýðheilsustöð standa saman að átakinu. Þetta er sjöunda árið sem farið er í fræðsluherferð af þessu tagi.
„Vakin er athygli á því að börn og unglingar séu næmari en aðrir fyrir skaðlegum áhrifum geislunar frá ljósabekkjum og sól. Tíðni húðkrabbameins hefur aukist mikið á síðustu áratugum, einkum tíðni svonefndra sortuæxla, en þau eru alvarlegasta tegund húðkrabbameins og algengasta tegund krabbameins hjá konum á aldrinum frá 15 til 34 ára,“ segir á vef Landlæknisembættisins.
Samkvæmt upplýsingum frá Krabbameinsskránni greinast að meðaltali 50 manns á ári með sortuæxli í húð. Auk þess greinast um 280 einstaklingar árlega með önnur æxli í húð. Á allra síðustu árum hefur heldur dregið úr tíðninni. Ár hvert deyja að meðaltali níu Íslendingar úr sortuæxlum í húð.