Fréttaskýring: Hagsmunir togast á við Hringbraut

Landspítalinn

Allt bendir nú til þess að nýr og hátæknivæddur Landspítali verði að veruleika en stefnt er að því að hann verði tekinn í notkun árið 2016 og kosti um 33 milljarða króna miðað við verðlag 2009. Nýlega fór fram forval vegna hönnunarsamkeppni og fá fimm aðilar, arkitektastofur í samstarfi við verkfræðistofur, að spreyta sig en niðurstaðan á að verða ljós í byrjun júlí.

Fyrstu skrefin að hönnun spítalans voru tekin þegar árið 2005 en þá höfðu menn í huga allmiklu stærri byggingu. En eftir hrunið 2008 varð að draga saman seglin. Ríkið á ekki neina peninga en eftir sem áður knúðu læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn á um smíði nýs spítala og einnig höfðu menn í huga nýju vofuna: atvinnuleysið. Eitt af ákvæðunum í stöðugleikasáttmála stjórnvalda og atvinnulífsins var því að hafist skyldi handa við spítalasmíðina sem fyrst.

Um er að ræða hús sem verður alls um 66 þúsund fermetrar, stofnunin verður framvegis öll á sama stað en ekki bæði við Hringbraut og í Fossvogi eins og nú. En erfitt verður að tryggja að tímasetningin standist, gera má ráð fyrir að það valdi oft vanda að byggt er á gömlu áætluninni um mun stærra verkefni.

Alútboð og valdsvið stétta

Mikið hefur mætt á Gunnari Svavarssyni, formanni verkefnisstjórnar, en hann er verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður Samfylkingarinnar. Þeir sem rætt var við voru þó flestir á því að hann hefði unnið af mikilli kostgæfni undir tímapressu. En arkitektar eru margir ósáttir við sum af skilyrðunum sem sett voru fyrir þátttöku í hönnunarforvalinu, hönnun er að sjálfsögðu fyrst og fremst á þeirra verksviði þótt verkfræðingar og fleiri sérfræðingar komi þar við sögu.

Ákveðið hefur verið að smíði spítalans fari í svonefnt alútboð sem merkir að verktakinn fær yfirumsjón með bæði hönnun og smíði. Ljóst er að með þessu hyggst verkefnisstjórnin reyna að tryggja að sem mest samfella verði í verkinu, m.a. að ekki komi til árekstra vegna deilna um valdsvið. En arkitektar benda á að mikilvægast sé að tryggja að sjálfur rekstur stofnunarinnar verði sem hagstæðastur, hann sé mikilvægasti útgjaldaliðurinn. Þekking arkitekta sé líklegust til að nýtast betur í þeim efnum en annarra starfsstétta. Hefði því að þeirra mati verið heppilegra að bjóða verkið út í hlutum en ekki láta einn aðila fara með hálfgert alræðisvald.

Hörð gagnrýni kom fram á heimasíðu Arkitektafélags Íslands þar sem gefið var í skyn að ríkið bryti gegn svonefndum réttmætisreglum stjórnsýslu. Ríkið hafi t.d. skyndilega krafist þess að arkitektar sem kæmu að hönnuninni afsöluðu sér höfundarrétti í hendur stjórnvalda. Ríkið er með þessu að tryggja sér sem mest olnbogarými ef gera þarf óvæntar breytingar. En arkitektar segja að verið sé að notfæra sér atvinnuleysi í stéttinni til að láta þá afsala sér rétti sem bundinn sé í lög og finnst ríkið fara offari í málinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert