Óvissa í landbúnaði heimagerður vandi

Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Ómar Óskarsson

„Sáttmáli stjórnarflokkanna um aðildarumsókn líkist því helst að ákveðið hafi verið að tvímenna í útreiðartúr til ESB-girðingarinnar. Annar snýr aftur og hinn fram í hnakknum og svo hotta þeir á klárinn hvor í sína áttina,“ sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands, í setningarræðu þingsins í gær. Sagði hann að óvissa um framtíð íslensks landbúnaðar væri að þessu leyti heimatilbúin því að ekki væri ljóst hvert stefndi.

Haraldur sagði engin haldbær rök standa til þess að ganga í Evrópusambandið, aðildarsinnar hafi hrakist úr einu skjóli í annað í þeim efnum og það eina sem standi eftir sé vilji Alþingis fyrir umsókn. „Kjarni málsins er að landbúnaðarstefna Evrópusambandsins þjónar ekki hagsmunum bænda eða neytenda, hún þjónar fyrst og fremst voldugum milliliðum og stórlandeigendum,“ sagði Haraldur og kvað viðurkennt að afurðaverð til bænda innan sambandsins hafi lækkað á sama tíma og verð til neytenda hefði hækkað.

Vilja ekki vera öðrum háð

Samkvæmt nýrri könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir Bændasamtökin hefur framtíð íslensks landbúnaðar mikil eða nokkur áhrif á afstöðu 62,8% landsmanna til Evrópusambandsaðildar. Ríflega 800 manns tóku þátt í könnuninni. Samkvæmt henni eru 56% landsmanna andvíg aðild að ESB. Þá sögðust 84% telja það mikilvægt að Ísland væri ekki háð öðrum ríkjum um landbúnaðarvörur.

Sýnir þetta að mati Haraldar fram á að sjónarmið bænda eigi mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar. Landbúnaðurinn gegni veigamiklu hlutverki í því að tryggja fæðuöryggi þjóðarinnar og skapi samfélaginu um 100 milljónir daglega. „Landbúnaðurinn er, þrátt fyrir allt, enn burðarás í atvinnulífi landsins,“ sagði Haraldur og benti að á að í efnahagsþrengingunum væru atvinnugreinar sem sköpuðu og spöruðu gjaldeyri mikilvægar fyrir þjóðina. Því væri mikilvægt að styðja við atvinnugreinina en 130 bú eiga nú í miklum fjárhagserfiðleikum vegna efnahagslægðarinnar. Niðurfærsla lána er heppileg lausn að mati Bændasamtakanna og gaf stjórn þeirra út ályktun þess efnis í desember. Í ræðu sinni sagði Haraldur að með því að koma til móts við skuldara yrði greiðsluvilja haldið við og með því myndu gæði lánasafna nýju bankanna aukast.

Getum lært af efnahagshruninu

Brita Skallerud, annar varaformaður Norges Bondelag, norsku bændasamtakanna, ávarpaði búnaðarþing Bændasamtaka Íslands við setningu þess í gær. Í ræðu sinni talaði hún um mikilvægi landbúnaðar á heimsvísu, efnahagshrunið og lýsti yfir stuðningi samtakanna við afstöðu hérlendra systursamtaka sinna gagnvart Evrópusambandinu.

„Missið ekki trúna á framtíð byggða, á eigin auðlindum, virku lýðræði og traustum landbúnaði. Sú framtíð kemur ekki af sjálfu sér heldur verður að berjast fyrir henni,“ sagði Brita. Hún kvað efnahagshrunið geta kennt okkur að meta á ný það sem hefði raunverulegt gildi. Þau vandræði sem „jakkafataklæddum mönnum sem trúa að verðmæti verði til af sjálfu sér“ hafi tekist að koma heiminum í gætu þannig þegar öllu væri á botninn hvolft haft einhver jákvæð áhrif.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert