Vilja hafna aðstoð AGS

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar
Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Birgitta Jónsdóttir, þingflokksformaður Hreyfingarinnar, mun á Alþingi í dag leggja fram tillögu til þingsályktunar um mótun efnahagsáætlunar sem tryggir velferð og stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, að því er segir í tilkynningu frá þingflokki Hreyfingarinnar.

Meðflutningsmenn eru Margrét Tryggvadóttir, Þór Saari, Eygló Harðardóttir, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson og Höskuldur Þórhallsson.

„Tillagan felur í sér að að Alþingi álykti að fela fjármálaráðherra að láta vinna efnahagsáætlun sem tryggir velferð og félagslegan stöðugleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Skilgreindar verði nauðsynlegar aðgerðir til að gera íslenskt hagkerfi óháð aðstoð sjóðsins og forðast frekari skuldsetningu ríkissjóðs, aðgerðaáætlun útbúin og henni fylgt eftir.

Leitað verði liðsinnis færustu erlendra sérfræðinga á sviði hagvísinda við mótun og framkvæmd áætlunarinnar til að tryggja þann trúverðugleika efnahagsstjórnar landsins sem er nauðsynlegur. Efnahagsáætlunin liggi fyrir 1. október 2010 og komi til framkvæmda fyrir 2011. Ráðherra kynni Alþingi efnahagsáætlunina við fyrsta tækifæri eftir að þing hefur verið sett í október 2010," segir í tilkynningu frá Hreyfingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert