Flugumferðarstjórar boða verkfall

Þorvaldur Örn Kristmundsson

Félag íslenskra flugumferðarstjóra (FÍF) boðar til vinnustöðvunar félagsmanna sinna dagana 10. mars til 19. mars 2010. Munu þeir leggja niður störf á milli klukkan 7 og 11 fyrir hádegi 10., 12., 15., 17. og 19. mars.

Verkfallsboðunin nær til allra starfandi flugumferðarstjóra hjá Keflavíkurflugvelli ohf. og Flugstoðum ohf.

Segir í fréttatilkynningu frá FÍF að þrátt fyrir að flugumferðarstjórum, sem vinna hjá Flugstoðum ohf. og Keflavíkurflugvelli ohf., beri ekki skylda til að sinna neinum störfum í verkfalli hefur FÍF ákveðið að flugumferðarstjórar sinni störfum í boðuðum verkföllum með eftirfarandi hætti:

Séð verður til þess að nægilega margir flugumferðarstjórar verði í flugturnum á Reykjavíkurflugvelli, Akureyrarflugvelli og í flugturni og aðflugi á Keflavíkurflugvelli til að sinna sjúkra- og neyðarflugi á meðan verkfall stendur yfir. Flugumferðarstjórarnir sinna með öðrum orðum eingöngu sjúkra- og neyðarflugi.

Veitt verður full þjónusta í úthafssvæðinu, þ.e. flugumferðarstjórar, sem hafa skipulagðar vaktir þessa daga, sinna störfum sínum með venjulegum hætti að því undanskyldu að flugvélar, sem ætla að lenda á íslenskum flugvöllum á meðan verkfall varir, fá ekki heimild til flugs inn á svæðið nema um neyðartilvik eða sjúkraflug sé að ræða. Heimilt er að bæta við flugumferðarstjórum, ef nauðsyn krefur, vegna umferðar í úthafssvæðinu. Þessi undanþága nær eingöngu til starfa flugumferðarstjóra sem sinna flugumferðarstjórn í flugstjórnarmiðstöðinni, þar með talinna varðstjóra og aðalvarðstjóra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert