Þótt tvísýnt hafi verið um framhald Icesave-viðræðna fram eftir degi í gær komust þær á skrið síðdegis í gær þannig að meiri bjartsýni ríkir nú um framhald málsins. Enn er þó mikil óvissa um framhaldið.
Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra segist telja að Íslendingar hafi aldrei fyrr átt jafn gott tækifæri til að ná hagstæðri niðurstöðu í málinu og muni ekki heldur fá slíkt tækifæri aftur. Hann ræddi í gær bæði við Paul Myners, bankamálaráðherra Bretlands, og Jan Kees de Jager, settan fjármálaráðherra Hollands. Þær viðræður hafi verið gagnlegar.
Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins stendur til að hópur embættismanna og ráðgjafa, sem ekki eru í samninganefndinni, fundi með Bretum fyrir hádegi í dag. Í framhaldi af því muni samninganefndirnar mögulega funda. Bretar munu hafa óskað eftir því í gær að samninganefndirnar funduðu í dag en þar sem Bretar þóttu senda misvísandi skilaboð var ákveðið að áðurnefndur hópur myndi fyrst funda með þeim.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.