Háskólanám að verða forréttindi hinna efnameiri

ekki verður boðið upp á sumarnám í Háskóla Íslands í …
ekki verður boðið upp á sumarnám í Háskóla Íslands í sumar. mbl.is/Ómar

„Nú er svo komið að ekki stendur til að hafa lánshæf sumarnámskeið í Háskóla Íslands í sumar, réttur námsmanna til atvinnuleysisbóta hefur verið afnuminn og horfur á atvinnu fyrir námsmenn, sérstaklega foreldra sem ekki geta unnið nema dagvinnu (á dagvistunartíma) eru mjög litlar.“

Þetta kemur fram í bréfi sem Anna Jóna Heimisdóttir, fyrsta árs nemi í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, sendi í dag til ráðherra og þingmann til að vekja athygli á bágri stöðu námsmanna á komandi sumri.

„Ég vildi vekja athygli á þessu,“ segir Anna Jóna, sem fékk í morgun svar frá nemendaskrá HÍ um að enginn sumarnámskeið yrðu í boði næsta sumar. Sjálf hefði hún farið í sumarnám stæði það til boða.

„Námsmenn hafa ekki rétt á bótum og það verður að segjast eins og er að atvinnuhorfur eru ekki góðar, sérstaklega ekki fyrir fólk með börn.“ Anna Jóna bendir á að margir námsmenn séu í sömu stöðu og hún sjálf - eigi þess ekki kost að vinna utan þess tíma sem leikskóli bjóði vistun og er mánaðar sumarfrí leikskóla bætist við sé áhugi vinnuveitenda ekki mikið. „Ég get ekki ímyndað mér að margir vilji ráða svona manneskju í vinnu og ég veit að ég er ekkert ein í þessari stöðu.“

Margir þeirra námsmanna sem hún hefur rætt við hafa miklar áhyggjur Það hafi enda vissulega verulega slæm áhrif á fjárhaginn að verða tekju- og lánalaus í þrjá mánuði. Ástandið veki t.a.m. örvæntingu meðal þeirra námsmanna sem ekki hafa bakland í fjármálum og foreldra sem þurfa að standa í skilum með húsnæðis- og önnur lán. „Fólk er mikið að velta fyrir sér hvað það eigi að gera. Hvort það eigi einfaldlega að sitja heima og betla mat fyrir börnin.“

Sjálf kveðst hún ekki enn vita hvernig hún brúi sumarið. „Ég reyni að sjálfsögðu að sækja um vinnu, en fyrirtæki eru ekki að ráða starfsfólk í sumarafleysingar af sama krafti og áður heldur reyna þau frekar að mæta sumarfríum með öðrum hætti.“

Varla teljist það jafnrétti til náms þegar eingöngu þeir efnameiri og þeir sem hafa efni á þremur tekjulausum mánuðum, geta stundað háskólanám. Háskólinn og stjórnvöld séu bregðast námsmönnum nú, nema gripið verði í taumana og eitthvað gert.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka