Tveir forvígismenn í norsku verkalýðshreyfingunni skrifa lesendabréf í Dagbladet í Noregi í dag þar sem norsk stjórnvöld eru hvött til þess að greiða út lán til Íslendinga óháð endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á efnahagsáætlun Íslands.
Þeir Jan Davidsen, formaður Fagforbundet, sem er stærsta verkalýðsfélag norskra bæjar- og heilbrigðisstarfsmanna, og Kjartan Lund, framkvæmdastjóri NOFS, sem eru norræn regnhlífarsamtök bandalaga starfsmanna ríkis og bæja, segja í lesendabréfinu, að Norðmenn geti lagt sitt að mörkum til að stuðla að því, að efnahagsleg endurreisn Íslands taki 5 ár en ekki 50 ár.
„Við getum notað efnahagslegan styrk okkar til að snúa taflinu um framtíð Íslands við. Þetta er sögulegt tækifæri sem við getum gripið ef pólitískur vilji er fyrir hendi," segja þeir.