Óþolandi atvinnuleysi

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Ómar

„Ég hvet þingheim að sýna nú samstöðu og koma því fólki til hjálpar, sem er án atvinnu, og þeim verktökum til hjálpar, sem eru án verka," sagði Sigmundur Ernir Rúnarsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í umræðum um störf þingsins á Alþingi í dag.

Sigmundur Ernir hvatti þingheim til að lesa bækling frá Samtökum atvinnulífsins um atvinnu fyrir alla og sagði að meiri eftirspurn væri eftir samstöðu þingheims frekar en sundrungu, einkum þegar kæmi að atvinnuuppbyggingu í landinu.

„Það er vitaskuld óþolandi, að  atvinnuleysi sé jafnmikið og raun ber vitni og það er áfellisdómur yfir stjórnvöldum þessa lands að svo skuli vera enda þótt afleiðingarnar séu augljósar af efnahagshruni fyrir einu og hálfu ári," sagði Sigmundur Ernir.

Hann hvatti bæði ríki og bæjarfélög til að draga ekki lappirnar í þessum málum og bregða ekki fæti fyrir framkvæmdir.  „Hér þurfum við að sækja fram, meira að segja hvað umhverfismálin varðar, til að koma eins mörgum framkvæmdum á framkvæmdastig og nokkur möguleiki er," sagði Sigmundur Ernir.

Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði Sigmundur Ernir hefði kaghýtt ráðherra Samfylkingarinnar fyrir alþjóð því hann væri greinilega orðinn þreyttur á að tala fyrir daufum eyrum í þingflokknum. 

Ragnheiður Elín Árnadóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, þakkaði Sigmundi Erni fyrir þessa hvatningu og sagðist taka undir hana.  Stjórnvöld væru stöðugt að bregða fæti fyrir öll þau tækifæri, sem væru til atvinnusköpunar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert