Samið vegna 365 miðla

Blaðamannafélagið og Samtök atvinnulífsins hafa gert kjarasamning vegna 365 ljósvakamiðla.
Blaðamannafélagið og Samtök atvinnulífsins hafa gert kjarasamning vegna 365 ljósvakamiðla. Ríkissáttasemjari

Blaðamannafélag Íslands og Samtök atvinnulífsins undirrituðu í dag hjá Ríkissáttasemjara kjarasamning vegna 365 ljósvakamiðla. Samningurinn er ótímabundinn.

365 miðlar hafa verið með sérstakan kjarasamning við Blaðamannafélagið vegna tiltekinna starfsmanna Stöðvar 2. Samningurinn er að upplagi frá því Stöð 2 var í eigu annars fyrirtæki og áður en hún rann inn í 365 miðla.

Kjarasamningur starfsmanna Stöðvar 2 hefur verið frábrugðinn aðalkjarasamningi Blaðamannafélagsins í  nokkrum atriðum.

Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, formaður Blaðamannafélagsins, sagði að sérsamningurinn við 365 ljósvakamiðla vegna þessara starfsmanna muni falla niður með tíð og tíma. Þeir starfsmenn sem störfuðu eftir fyrrnefndum samningi muni þó halda áfram öllum sínum réttindum og meira til þar til þeir láta af störfum.

Starfsmenn Stöðvar 2 munu í framtíðinni vinna eftir aðalkjarasamningi BÍ en að auki gilda ýmsir viðaukar til að tryggja óbreytt réttindi þessara starfsmanna. Starfsmenn sem ráðnir verða til Stöðvar 2 í framtíðinni munu einnig njóta ýmissa réttinda sem var að finna í kjarasamningi Stöðvar 2.

Allar launahækkanir sem verða samkvæmt aðalkjarasamningi BÍ munu einnig gilda fyrir þessa starfsmenn.

Blaðamannafélagið og Samtök atvinnulífsins undirrituðu aðalkjarasamning 2. desember síðastliðinn. Sá samningur gildir til 31. desember 2010.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka