Árið 2008 veiddu íslensk skip um 151 þúsund tonn af þorski (127 þúsund tonn slægt) sem úr voru unnin 90 þúsund tonn af afurðum að verðmæti 59,5 milljarðar króna (fob). Um 75% aflans fór til landvinnslu, 20% var sjófryst og rúmlega 5% var flutt út óunnið í gámum.
Þetta kemur fram í skýrslu sem Matís ohf. hefur unnið fyrir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið á nýtingu sjávarafla hér við land.
Niðurstöðurskýrslunnar sýna að verulegur munur var á nýtingatölum í landvinnslu og sjávinnslu þ.s. flakanýting, hausanýting og nýting á aukaafurðum var umtalsvert lakari hjá frystitogaraflotanum.
„Gróft áætlað var nýting í landvinnslu um 72% (massahlutfall hráefnis og afurða miðað við slægt með haus) á móti um 44% í sjófrystingu. Ýmsar ástæður kunna að liggja að baki þeirri staðreynd að nýting afla af frystiskipum sé mun lakari en í landvinnslu, en þó má ljóst vera að umtalsverð sóknarfæri séu fólgin í að auka nýtingu hjá frystitogaraflotanum. Sem dæmi um hvar hægt væri að auka nýtingu má t.d. nefna að hausanýting hjá flakafrystitogurum er almennt 35,5%, en í flakavinnslu í landi er hún 22-30%; og yfirdrifinn meirihluti togaranna sér þess þar að auki ekki fært að koma með hausana í land. Einnig bendir ýmislegt til að unnt væri að koma með meira að öðrum aukaafurðum í land en nú er gert.