Bannað að selja burt kvóta úr þrotabúum

Sjávarútvegsráðherra hefur lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem meðal annars er kveðið á um að ráðherra geti tímabundið bannað að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti aflaheimildum úr einstökum sveitarfélögum eða byggðarlögum sem tilheyra gjaldþrota einstaklingum og fyrirtækjum eða einstaklingum og fyrirtækjum sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar. 

Í frumvarpinu segir, að forsaga þessa ákvæðis sé meðal annars sú, að  sjávarútvegsráðuneytið hafi undanfarna mánuði fylgst með fjárhagsstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi og í því skyni verið rætt við yfirmenn í bönkum og öðrum fjármálafyrirtækjum til þess að upplýsa stöðuna.

Meðal þess sem rætt hafi verið sé hugsanleg tilfærsla aflaheimilda, komi til gjaldþrots útgerða. Fyrir liggi, að byggðarlög víða um land eigi allt sitt undir sjávarútvegi og yrði staða margra mjög erfið ef aflaheimildir flyttust frá sveitarfélögum eða byggðarlögum komi til gjaldþrots eða annars konar eignauppgjörs einstakra fyrirtækja. Ljóst sé að það geti haft ófyrirsjáanleg áhrif á stöðu vissra byggðarlaga.

Að mati ráðuneytisins hafi komið fram ríkur skilningur hjá bönkum og fjármálafyrirtækjum á mikilvægi þess að sporna gegn tilfærslum á aflaheimildum frá byggðarlögum.

Gert er ráð fyrir því að ráðherra hafi þessa heimild á þessu og næstu tveimur fiskveiðiárum, það er fram á árið 2012. 

Frumvarpið í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert