Ekki hefur náðst samkomulag um hvalveiðikvóta fyrir Japan, Noreg og Ísland. Þeim hluta aukafundar Alþjóðahvalveiðiráðsins sem fjallaði um framtíð ráðsins og málamiðlunarsamkomulag um veiðar þessara þriggja ríkja lauk í Flórída í gær.
Á fundinum var rætt um drög að málamiðlunarsamkomulagi sem hópur tólf ríkja innan Alþjóðahvalveiðiráðsins lagði fram og miða að því að leysa deiluna um bann við hvalveiðum í atvinnuskyni. Gert er ráð fyrir að samkomulagið gildi í tíu ár og að það feli í sér takmarkaðar veiðar Japana, Norðmanna og Íslendinga.
Þótt Ástralir séu í tólf ríkja hópnum lögðu þeir fram á fundinum tillögu sem í raun útilokar hvalveiðarnar.
Tómas H. Heiðar, aðalfulltrúi Íslands í Alþjóðahvalveiðiráðinu, segir að Ísland og fleiri ríki hafi gagnrýnt tillögu Ástrala harðlega. Hann segir að fundurinn hafi að öðru leyti verið jákvæður.
Ekkert samkomulag liggur enn fyrir um málið.
Málinu var vísað til umfjöllunar í tólf ríkja hópnum. Hann kemur saman til fundar um miðjan apríl. Ef samkomulag næst þar verður niðurstaðan lögð fyrir aðalfund Alþjóðahvalveiðiráðsins í júní.