Guðbjarni Traustason, sem leitað hefur verið síðan á laugardag, er kominn fram. Samkvæmt upplýsingum frá Páli Winkel, fangelsismálastjóra, gaf Guðbjarni sig fram við fangelsismálayfirvöld skömmu fyrir kl. 19 í kvöld. Hann situr nú í einangrun á Litla-Hrauni og mun sitja í henni í tvær vikur en það er, að sögn Páls, hluti af agaviðurlögum fangelsismálayfirvalda.
Spurður hvort og hvaða afleiðingar strok Guðbjarna hafi segir Páll ljóst að Guðbjarni hafi með hegðun sinni misst öll áunnin réttindi varðandi nám og vinnu utan fangelsis, auk þess sem hann eigi ekki kost á vistun í opnu úrræði eða reynslulausn. Jafnframt mun hann ekki fá dagsleyfi næstu tvö árin í það minnsta.
Að sögn Páls hefur Guðbjarni enn ekki gefið neinar skýringar á því hvers vegna hann hafi ekki skilað sér eftir dagsleyfið á laugardag.
Guðbjarni fékk þungan dóm í svokölluðu Pólstjörnumáli árið 2008.