Viðbragðshópar Almannavarna og eldgosadeildar Veðurstofunnar hittast á morgun kl. 11.00 til að ræða stöðu mála vegna óvenjumikillar smáskjálftavirkni undi Eyjafjallajökli. „Þar munum við bera saman bækur okkar og m.a. taka ákvörðun um hvort ástæða sé til þess að bæta við mælingum á svæðinu,“ segir Steinunn S. Jakobsdóttir, serkefnisstjóri jarðváreftirlits á Veðurstofu Íslands.
Að sögn Steinunnar byrjaði smáskjálftavirknin í um 8-10 km dýpi undir Eyjafjallajökli í desember sl. vegna kvikuinnskots en síðasta sólarhringinn hafa mælst um þúsund skjálftar á svæðinu. „Þetta eru litlir skjálftar, flest allir undir 2 á Richterskala. Þeir stærstu ná upp í 2,5 eða 2,7. Þeim fer hins vegar heldur fjölgandi sem ná 2 og þess vegna finnst manni full ástæða til þess að fylgjast með því hvað sé að gerast, því þetta er náttúrlega eldfjall,“ segir Steinunn og rifjar upp að Eyjafjallajökull hafi síðast gosið árið 1821.
Spurð um fyrri skjálftavirkni á svæðinu bendir Steinunn á að árið 1994 og á árunum 1999-2000 hafi verið smáskjálftar á svæðinu vegna innskotshrinu á svæðinu auk þess sem smá hrina hafi staðið yfir síðasta sumar. Tekur hún fram að þó þeir skjálftar hafi staðið yfir lengri tíma hafi þeir hins vegar ekki verið jafn margir og öflugir og núna.
Innt eftir því hvort gos geti hugsanlega verið á leiðinni segir Steinunn alltaf gott að vera á varðbergi. „Þetta er eldfjall svo það getur gosið, en svo getur þetta líka gengið yfir. Við reiknum með því að ef það væri að hefjast gos þá myndu verða stærri skjálftar sem myndu að öllum líkindum finnast í byggð. Svo við reiknum með því að við myndum sjá gleggri merki um að það væri að hefjast gos ef þannig færi.“