Ólafur Elíasson, einn forsvarsmanna Indefence hópsins, telur ámælisvert hvað íslensk stjórnvöld reyna að gera lítið úr þjóðaratkvæðagreiðslunni sem fram fer nk. laugardag.
Í samtali við mbl.is segist Ólafur furða sig á þeim málflutningi sem heyrst hafi hjá stjórnarliðum síðustu daga þess efnis að þjóðaratkvæðagreiðslan sé merkingarlaus.
„Það er þvílík firra. Við þurfum ekki annað en benda á allan þann fjölda af erlendum blaða- og fréttamönnum sem eru núna staddir á landinu og hafa greinilega allt aðra skoðun á kosningunni heldur en íslenskir ráðamenn,“ segir Ólafur.
Að mati Ólafs er fyrir neðan allar hellur að þurfa að hlusta á ráðherra ríkisstjórnarinnar gera lítið úr lýðræðinu. „Það getur ekki verið heppilegt að efnahags- og bankamálaráðherra Gylfi Magnússon fari með slíkar fleipur á blaðamannafundi með erlendum blaðamönnum,“ segir Ólafur og bætir við:
„Við í Indefence höfum síðustu síðustu vikur átt viðtöl við um það bil 200 blaðamenn víðs vegar að úr heiminum og við höfum ekki orðið vör við það að þessir blaðamenn hafi átt neitt sérstaklega erfitt með að skilja efnisatriði málsins og sjónarmið Íslendinga. Við í Indefence hvetjum alla kjörgenga Íslendinga til að mæta og greiða atkvæði í þessari merkilegu kosningu sem fram fer á laugardaginn.“