Geir H. Haarde, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokksins og forsætisráðherra, fór fyrr í vikunni til lokameðferðar og eftirlits á háskólasjúkrahúsinu í Amsterdam. Þar hefur hann verið til eftirmeðferðar á þriggja mánaða fresti frá því illkynja krabbameinsæxli var numið brott úr vélinda hans í febrúar í fyrra.
Samkvæmt upplýsingum frá Sjálfstæðisflokknum hefur öll meðferð, sem Geir hefur þurft að fara í undanfarið ár, heppnast mjög vel og engar leyfar meinsins sýnilegar. Meðferðinni er því lokið og hefur Geir verið endanlega útskrifaður af hollenska sjúkrahúsinu.