Össur ræddi við Westerwelle

Össur og Westerwelle í Berlín í dag.
Össur og Westerwelle í Berlín í dag.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, átti í dag fund með Guido Westerwelle, utanríkisráðherra Þýskalands, í Berlín. Að sögn utanríkisráðuneytisins ræddu þeir m.a. umsókn Íslands um aðild að Evrópusambandinu og með hvaða hætti þýska þingið mun fjalla um hana.

Segir í tilkynningu ráðuneytisins, að Westerwelle hafai lýst stuðningi við aðildarumsókn Íslands og ánægju með skýrslu framkvæmdastjórnar ESB um Ísland sem birt var í síðustu viku. 

Össur gerði grein fyrir yfir efnahagsáætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og fór ítarlega yfir helstu þætti í Icesave-málinu og þær viðræður sem átt hafa sér stað í London. Þá ræddu ráðherrarnir tvíhliða samskipti Íslands og Þýskalands, s.s. viðskiptamál, menningar- og ferðamál, þ. á m. fyrirhugaðan heiðursess Íslands á bókamessunni í Frankfurt á næsta ári.

Össur átti ennfremur fund með formönnum utanríkis- og Evrópumálanefnda þýska þingsins og hitti hóp þýskra þingmanna sem fylgjast með málefnum Íslands. Segir ráðuneytið, að á öllum þessum fundum hafi Össur farið yfir aðildarumsókn Íslands, efnahagsáætlun stjórnvalda og rætt Icesave-málið ítarlega. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert