Stór hluti Dana telur rétt að Íslendingar verði látnir greiða Bretum og Hollendingum að fullu vegna Icesave. Þetta kemur fram í könnun sem MMR gerði á afstöðu Dana til Icesave deilunnar. Niðurstöður sýna að afstaða Dana er ólík afstöðu Norðmanna og Svía.
MMR kannaði afstöðu almennings í Danmörku til kröfu Breta og Hollendinga á hendur islenskum stjórnvöldum vegna Icesave. Af þeim sem tóku afstöðu töldu 45% rétt að Íslendingum yrði gert að endurgreiða Bretum og Hollendingum að fullu vegna greiðslna yfirvalda í þessum löndum til innistæðueigenda.
Fjórðungur Dana taldi að Íslendingar ættu að neita að endurgreiða Bretum og Hollendingum og 30% Dana taldi að kostnaður vegna innistæðueigenda ætti að deilast milli landanna þriggja. 37% Dana kváðust ekki hafa skoðun á málinu.
Afstaða Dana reyndist frábrugðin afstöðu Svía og Norðmanna í sambærilegum könnunum MMR. Þær sýndu að 21% Svía og 33% Norðmanna töldu að Íslendingum bæri að endurgreiða Bretum og Hollendingum að fullu.
Við framkvæmd kannananna var stuðst við þjóðarúrtak Dana, Svía og Norðmanna á aldrinum 18-74 ára. Gerðar voru netkannanir.
Fjöldi þátttakenda í Danmörku var 1.013 og neituðu 46 að svara.
Fjöldi þátttakenda í Svíþjóð var 1.032 og neituðu 28 að svara.
Fjöldi þátttakenda í Noregi var 1.033 og neituðu 19 að svara.
Könnunin var gerð 11.-15. febrúar 2010.