„Það fannst eitthvað hættulegt í kjallaranum“

Frá Kaupmannahöfn.
Frá Kaupmannahöfn. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Íslendingarnir Sebastian Storgaard og kærasta hans Mist Hálfdánardóttir voru meðal íbúa fjölbýlishússins í Gentofte sem urðu fyrir þeirri óþægilegu lífreynslu að vopnabúr uppgötvaðist í kjallaranum. Rýmdi danska lögreglan húsið um tíma í nótt vegna ótta við að sprengja leyndist í einum kassa geymslunnar, sem full var af vopnum, og var sprengjusveit danska hersins kölluð á vettvang til að gera sprengjuna óvirka.

„Við vorum að fara í mat til frænku minnar um hálfsjöleytið í gærkvöldi, þegar maður stoppaði okkur fyrir utan húsið með tveimur lögregluþjónum,“ segir Sebastian. Þau hafi ekki vitað hvað stóð á sig veðrið, en þar sem blokkirnar eru eingöngu byggðar ungu fólki komi upp einhvers konar vesen við og við. „Þeir tóku niður nöfn okkar og við veltum málinu ekkert meira fyrir okkur.“

Er þau héldu heim á ný um tíu - hálfellefu, mættu þeim hins vegar bæði sjúkra- og slökkvibílar, auk lögreglu. „Við héldum fyrst að slys hefði orðið í nágrenninu en vorum svo stoppuð af lögreglukonu sem neitaði okkur um inngöngu í húsið. „Það fannst eitthvað hættulegt í kjallaranum,“ sagði hún og ég spurði: „Hvað meinarðu með því?“ Hún svaraði: „sprengiefni.““ 

Sebastian segir þau vissulega hafa orðið fyrir áfalli við fréttirnar, en hálfpartinn ekki trúað þeim. „Við fórum samt aftur til frænku minnar sem býr í nágrenninu, því lögreglan ætlaði ekki að hleypa neinum inn í húsið næstu tímana. Þegar við komum þangað var þetta síðan orðin aðalfréttin í öllum dönsku fjölmiðlunum og þá fengum við fyrst einhverjar fréttir af því hvað væri að gerast.“

Íbúum var hleypt aftur inn í húsið um eitt leytið í nótt.  „Þá vorum við hins vegar búin að gefast upp og sváfum bara hjá frænku minni.“

Sebastian segir þau ekki þekkja manninn sem lögregla handtók vegna vopnabúrsins. „Maður þekkir nágrannana lítið og sér lítið til þeirra.“ En þau hafa búið í húsinu í mánuð. „Það er eiginlega hálffyndið að ég fór ofan í þennan kjallara í fyrsta skipti í gær aðeins nokkrum tímum áður en þetta gerðist,“ segir hann og kveður um ósköp venjulegan fjölbýlishúsakjallara að ræða.

„Þau hafa nú jafna sig á ævintýri næturinnar. „Það er  oft búið að vera að hræða mann með að fara ekki inn á einhverja staði á Norrebro, en Gentofte á að vera frekar rólegur staður.“ Engar breytingar verði því á þeirra högum vegna þessa. „Maður er ekki að fara að flytja út af þessu,“ segir Sebastian en þau Mist eru búin að vera að sækja um háskólavist í Kaupmannahöfn.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert