Gjaldeyrishöftin verður að afnema, segir í ályktun, sem samþykkt var á aðalfundi Samtaka iðnaðarins í aðdraganda iðnþings, sem haldið er eftir hádegið.
„Þau fæla frá fjárfesta og trufla eðlilegt fjárstreymi til og frá landinu. Þá brjóta þau í bága við grundavallarsjónarmið sem íslenska hagkerfið þarf að styðjast við og hefur skuldbundið sig til með EES-samningnum. Uppbygging verður ekki án stöðugleika í gengismálum. Stjórnvöld verða að setja fram trúverðuga leið í gjaldmiðilsmálum til skamms og langs tíma," segir í ályktuninni.
Þar segir einnig, að á næstu 10 árum þurfi að skapa störf fyrir 35.000 manns. Til þess að svo megi verða þurfi að verða umskipti í efnahags- og atvinnumálum sem leiði til verulegs hagvaxtar. Þungamiðja uppbyggingar í atvinnulífinu verði að vera örvun gjaldeyrisskapandi greina sem geti skapað arðbær störf. Við blasi, að iðnaður og þjónusta verði að bera hitann og þungan af þessari uppbyggingu. Orkuauðlindir og hugvit þurfi að virkja jöfnum höndum.