„Kosningin hér getur haft mikil áhrif víðar en á Íslandi. Ég býst við að stjórnmálamenn í Evrópu óttist að ef Íslendingar segi þvert nei þá gæti það smitast til annarra landa eins og Grikklands og Írlands.
Venjulegt fólk muni þá hugsa sem svo að fyrst Íslendingar geti gert þetta, af hverju ekki við. Þetta skýrir sennilega þann mikla áhuga sem erlendir fjölmiðlar sýna kosningunum á Íslandi,“ segir Stephen Evans, fréttamaður hjá BBC til fjölda ára, einn þeirra fjölmörgu erlendu fréttamanna sem komnir eru til landsins til að fylgjast með þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave.
Fulltrúar um 30 fjölmiðla boðuðu komu sína, flestir frá Norðurlöndunum og Evrópu en einnig frá Bandaríkjunum, Kína og Japan.
Evans segir Íslendinga ekki eina um það að hugsa bönkunum þegjandi þörfina. Sú skoðun sé útbreidd í Evrópu og Bandaríkjunum.
Sjá nánari umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.