Endurgreiðslur vegna fæðingargalla í munnholi hækkaðar

Álfheiður Ingadóttir, heilbrigðisráðherra, undirritaði í dag nýja reglugerð um aukna þátttöku sjúkratrygginga í nauðsynlegum tannlækninga- og tannréttingakostnaði vegna alvarlegra afleiðinga fæðingargalla, sjúkdóma eða slysa. 

Endurgreiðsla sjúkratrygginga samkvæmt nýju reglugerðinni skal nema 95% af reikningi tannlæknis/tannréttingarsérfræðings. Er heildarkostnaður  vegna þessarar ákvörðunar   áætlaður um 140 milljónir króna á árinu 2010 og greiðist af tannlæknalið fjárlaga. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu.

„Reglugerðir sem settar voru um kostnaðarþátttöku vegna þessa í lok árs 2009 hafa ekki skilað tilætluðum árangri að mati ráðherra. Reikna má með að um 80 manns njóti endurgreiðslu á ári skv. nýju reglugerðinni. Um er að ræða einstaklinga sem t.d. eru fæddir með skarð í vör og gómi, einstaklinga með meðfædda tannvöntun a.m.k. fjögurra eða fleiri fullorðinstanna framan við endajaxla, auk ýmissa sambærilegra tilvika.

Reglugerðin tekur einnig til endurgreiðslu kostnaðar við nauðsynlegar tannlækningar og tannréttingar vegna sannanlegra alvarlegra afleiðinga slysa þegar bætur fást ekki greiddar frá þriðja aðila," segir m.a. í tilkynningunni.

Reglugerðin öðlast gildi við birtingu í Stjórnartíðindum og munu ívilnandi ákvæði hennar fyrir umræddan hóp gilda frá 1. janúar sl. Reglugerðir sem settar voru í árslok 2009 gilda áfram um aðra þá hópa sem þessi reglugerð nær ekki til. 



mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert