Almannavarnir eru í viðbragðsstöðu vegna hugsanlegs eldgoss í Eyjafjallajökli. Aukin jarðskjálftavirkni hefur verið í jöklinum frá því um áramót og hafa þúsundir skjálfta mælst á seinustu sólarhringum.
Á vef Veðurstofunnar má sjá að það sem af er
degi hafa mælst 23 skjálftar sem eru stærri en 2 á Richter. Öflugustu
skjálftarnir hafa mælst 2,9 og 2,8 á Richter. Þeir mældust á 8-10 km
dýpi, en grynnstu skjálftarnir hafa verið á 1-3 km dýpi.
Síðasta gos í Eyjafjallajökli var 1821-1823 og þar á undan
árið 1612. Um landnám Íslands er einnig talið að gosið hafi í jöklinum.
Gos í Eyjafjallajökli hafa almennt ekki verið hamfaragos, þau byrja
rólega en færast svo í aukana. Árin 1994 og 1999 var mikil
jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli og talið að kvikuinnskot hafi
verið djúpt í fjallinu, sem ekki náði að komast upp á yfirborðið.