Heldur dregur úr skjálftavirkni

Mikill fjöldi jarðskjálfta hefur orðið í Eyjafjallajökli eins og þetta …
Mikill fjöldi jarðskjálfta hefur orðið í Eyjafjallajökli eins og þetta kort af vef Veðurstofunnar sýnir.

Jarðskjálftavirkni undir Eyjafjallajökli heldur áfram, en þó hefur verið heldur rólegra seinustu klukkutímana að því er kemur fram á vef Veðurstofunnar. Mælst hafa um 20-30 skjálftar á klukkutíma síðan kl. 9:30, en enginn þeirra hefur náð stærðinni 2.

Hátt á þriðja þúsund skjálftar hafa mælst frá því á miðvikudag og hafa stærstu skjálftarnir fundist í Fljótshlíðinni. Tveir skjálftar, sem mældust tæplega 3 stig, urðu í morgun.

Vísindamannaráð almannavarna fundaði í morgun vegna aukinnar jarðskjálftavirkni í Eyjafjallajökli, en frá því um áramót hefur virkni færst í aukana. Í lok febrúar jókst svo virknin verulega og síðustu sólarhringana hefur hún verið viðvarandi.  Flestir eru á 7-10 kílómetra dýpi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert