„Fyrir þá sem velktust í vafa: Það verður efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave-samninginn á Íslandi á morgun.Klukkan tíu í gærmorgun var þegar komin röð fyrir utan Laugardalshöllina í Reykjavík þar sem utankjörfundaratkvæði eru greidd.“ Með þessum orðum hefst grein á norska fréttavefnum E24!
Segir í greininni að verulega hafi dregið úr líkum á snöggri afgreiðslu Icesave-samningsins og er haft eftir Gylfa Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra að hætta sé á að kostnaður við samningagerðina verði hærri en Icesave-samningurinn sjálfur. Bretar og Hollendingar hafi sýnt vissa eftirgjöf undanfarna daga, þó sjá verði hvernig mál þróist. „Við getum endað með samning sem virkar betri samningur á pappírunum, en jafnhliða kostnaðinum sem hlýst af frestuninni, reynist hærri er upp er staðið,“ segir Gylfi.
Ekki sé hægt að útiloka að efnahagur landsins þoli að Icesave-deilan dragist í mörg ár. „Landið er sjálfbjarga og með örlítinn viðskiptahagnað. Ríkin hefur möguleika á að endurfjármagna þær skuldir sem falla á gjalddaga 2011, en það mun verða mun erfiðara að takast á við þessa erfiðleika án aðstoðar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins,“ segir Gylfi
„Þetta virðist hins vegar vera gjald sem margir Íslendingar eru tilbúnir að greiða. Og að Íslendingar fari í vörn til að berjast fyrir algjöru frelsi er hefð sem á sér djúpar rætur,“ segir greinarhöfundur, dregur fram samlíkingu með Bjarti í Sumarhúsum, og spyr Gylfa hvort hann óttist að Ísland eigi eftir að lenda í sporum Bjarts - að segja nei við öllum samningum til að vera frjáls, burtséð frá fórnarkostnaðinum. „Þjóðarandinn spilar stórt hlutverk hér og bókmenntaarfurinn hefur vissulega áhrif á hvernig fólk bregst við. En ég vona virkilega að skynsemin hafi betur, jafnvel þó fólk eigi erfitt með að kyngja henni.“
Stjórnarandstaðan hefur gagnrýnt stjórnvöld fyrir að draga úr mikilvægi þess að íslenskur almenningur fái í fyrsta skipti tækifæri á að segja sína skoðun á Icesave-málinu. En haft er eftir viðskiptaritstjóra Aftenposten, Ola Storeng, að þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardag kunni að færa valdið á ný í hendur stjórnmálamannanna sem ollu hruninu.
„Við viljum ekki borga fyrir glæpamenn,“ þrumar ellilífeyrisþeginn Jón Pétursson á klingjandi norsku eftir sex ára nám á dýralæknaháskóla í Ósló fyrir mörgum árum síðan. Strax í gær höfðu rúmlega 4.000 Íslendingar greitt atkvæði utan kjörfundar í þjóðaratkvæðagreiðslu sem búist er við að útkoman verði þvert nei við samningi við Breta og Hollendinga um að greiða til baka hundruð milljaðra kr. skuld Icesave-reikninganna.
„Og þrátt fyrir að íslensk stjórnvöld hafi síðustu vikuna lýst þjóðaratkvæðagreiðslunni sem marklausri, hafa vinsældir forseta landsins aukist mikið eftir að hann neitaði að skrifa undir lögin. „Ég hef aldrei staðið á fætur þegar forsetinn hefur gengið inn í herbergi, en það mun ég gera nú,“ segir Jón.“