Skeggnælur seldar á kjörstað

Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, ásamt mottufríðum karlmönnum.
Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands, ásamt mottufríðum karlmönnum. mbl.is

Skeggnælur, barmmerki í líki yfirvararskeggs, verða seldar við kjörstaði um land allt í tilefni af mánaðarlöngu átaki Krabbameinsfélags Íslands um karlmenn og krabbamein sem nefnist Mottu-mars. 

Að sögn aðstandenda hefur átakið farið vel af stað en fjölmargir karlmenn hafa sýnt átakinu stuðning með því að safna yfirvaraskeggi og skrá sig á vefinn karlmennogkrabbamein.is.

Allur ágóðinn af söfnunarstarfi átaksins verður varið til rannsókna, fræðslu, ráðgjafar og stuðnings við krabbameinssjúklinga og aðstandendur þeirra.

„Það var nú tilviljun ein sem réði því að sala nælunnar fer fram á kjördag en fyrst það atvikaðist svo ákváðum við að nýta okkur það til að ná til almennings með ósk um stuðning,“ segir Guðrún Agnarsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélags Íslands.

Yfir 700 karlar greinast árlega með krabbamein á Íslandi en lífslíkur þeirra eru lakari en hjá íslenskum konum. Guðrún bendir á að krabbamein hjá körlum séu oft lengra gengin við greiningu en hjá konum, en því fyrr sem gripið er til aðgerða gegn sjúkdómnum þeim mun betri eru batahorfur. Því sé nauðsynlegt að karlar geri sér grein fyrir helstu einkennum krabbameins og leiti sér læknisaðstoðar verði þeir varir við þau.Sagði hún batahorfur þeirra sem greinast með krabbamein hér á landi almennt góðar. 

Forstjóri Krabbameinsfélagsins minnir einnig á mikilvægi forvarna í baráttunni við krabbamein en rannsóknir sýna að hægt er að koma í veg fyrir eitt af hverjum þremur krabbameinstilfellum með forvörnum og lífstíl eins og að borða hollan mat, stunda líkamsrækt reglulega, stilla drykkju og sólböðum í hóf og halda sig alveg frá reykingum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert