Papeyjarmál tengdist alþjóðlegum glæpahring

Fíkniefnin sem reynt var að smygla með Sirtaki í fyrra.
Fíkniefnin sem reynt var að smygla með Sirtaki í fyrra. mbl.is/Július

Papeyjarmálið svonefnda, þegar reynt var að smygla 109 kílóum af fíkniefnum til landsins í apríl í fyrra með skútunni Sirtaki, tengdist stórum alþjóðlegum glæpahring sem nú hefur verið upprættur.

Evrópska lögreglan Europol upplýsti þetta í vikunni og segir að lögreglumenn frá 15 ríkjum hafi komið að rannsókn málsins. Réttarhöld hefjast í apríl í Bonn í Þýskalandi yfir þremur mönnum, 57 ára gömlum Þjóðverja og tveimur Lettum, 37 og 40 ára, sem taldir eru hafa stjórnað glæpahringnum.  Áætlað er að lögregla hafi lagt hald á peninga, fasteignir og hlutabréf sem metin eru á yfir 300 þúsund evrur, yfir 52 milljónir króna. 

Europol segir að glæpahringurinn hafi meðal annars framleitt fíkniefni á borð við amfetamín í Hollandi, flutt inn kókaín frá Suður-Ameríku og dreift fíkniefnum í Evrópusambandsríkjum og til Rússlands og víðar.

Rannsókn hófst 2008 

Rannsókn málsins hófst sumarið 2008 þegar lögregla í Þýskalandi hafði veður af samskiptum Þjóðverjans við lettneskan glæpahring. Fylgst var með nokkrum fundum þeirra í Bonn, Köln, Riga og í Hollandi. 

Í samvinnu við stjórnvöld í Bandaríkjunum, Belgíu og Spáni var staðfest, að Þjóðverjinn var skipstjóri og annar eigenda snekkju, sem nefnist Hiqe. Talið er að þessi snekkja hafi verið notuð til að flytja 1,2 tonn af kókaíni frá Suður-Ameríku til Spánar um mitt árið 2007. Frá Spáni var kókaíninu dreift til Belgíu, Hollands og Lettlands.

Í ágúst 2008 var maður handtekinn með 15 kíló af e-töflum í fórum sínum í Frankfurt í Þýskalandi. Lögreglan segir, að í ljós hafi komið að þessi maður smyglaði um 750 þúsund e-töflum og 15 kílóum af kókaíni inn í Eystrasaltslöndin á árunum 2006 til 2008. 

Misheppnað smygl á 3,2 tonnum af kókaíni 

Í janúar árið 2009 taldi þýska lögreglan sig hafa staðfest, að smyglarahópurinn hefði haft náin tengsl við fíkniefnasala í Ekvador og Perú. Þegar hér var komið sögu höfðu Þjóðverjar samband við Europol. Rannsókn leiddi síðan í ljós, að Þjóðverjinn hafði ekki aðeins flutt 1,2 tonn af kókaíni með snekkjunni Hiqe árið 2007 heldur átti að nota snekkjuna til að taka við miklu magni af kókaíni frá skipinu Junior undan strönd Afríkuríkisins Gíneu í febrúar 2008. Þær áætlanir fóru hins vegar út um þúfur þegar bátar, sem áttu að flytja kókaínið frá Brasilíu, komu ekki á réttum tíma.

Hiqe sigldi því á brott en Brasilíu-bátarnir komu á endanum og fluttu 3,2 tonn af kókaíni um borð í Junior. Franska strandgæslan stöðvaði hins vegar för Junior, lagði hald á kókaínið og handtók áhöfnina. 

Kókaín í sírópi 

Í mars 2009 hittust félagar í glæpahringnum á hóteli í Köln til að ræða um kókaínsmygl frá Ekvador til Evrópu. Meðal hugmynda, sem ræddar voru, var að leysa kókaínið upp í  sírópi og endurheimta það síðan í rannsóknarstofu þegar það væri komið til Evrópu.

Í maí 2009 voru nokkrir menn handteknir í  Guayaquil í Ekvador á grundvelli upplýsinga frá Europol. Þar var lagt hald á gám með 600 tunnur af sírópi, sem vógu alls 22 tonn. Í ljós kom að melassinn innihélt 10% kókaín. 

Meðal þeirra, sem handteknir voru í Ekvador, var 49 ára gamall Letti, sem félagar hans nefndu Aðmírálinn og var talinn vera höfuðpaur þarlendra glæpasamtaka, einn Úkraínumaður og tveir Ekvadorbúar. Lettinn átti snekkjuna Hiqe ásamt Þjóðverjanum, sem áður hefur verið nefndur. Þjóðverjinn var handtekinn í maí 2009  og einnig Lettarnir tveir, sem koma fyrir réttinn í Bonn í apríl.

Meðal þess sem lögreglan hefur lagt hald á vegna málsins er snekkjan Hiqe, sem nú liggur í höfn á norðurhluta Spánar.  Þess má geta, að sex karlmenn voru dæmdir í 3 til 10 ára fangelsi í Papeyjarmálinu en alls reyndu þeir að smygla 55 kílóum af amfetamíni, 34 kílóum af maríjúana, 19,5 kílóum af hassi og 9400 e-töflum með skútunni Sirtaki.   

Skútan Sirtaki í fylgd varðskips eftir að ferð hennar var …
Skútan Sirtaki í fylgd varðskips eftir að ferð hennar var stöðvuð í fyrra. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert