Jarðskjálftavirknin undir Eyjafjallajökli heldur áfram, en þó hefur verið heldur rólegra seinustu klukkutímana að sögn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.
Enn mælast þó margir jarðskjálftar á hverjum klukkutíma og frá miðnætti hafa mælst 2 skjálftar að stærð um 2,8, annar var um miðnættið hinn rétt fyrir klukkan fjögur. Fylgst er náið með framvindunni í samvinnu við jarðvísindamenn.
Fyrsta háskastig viðbragðsáætlunar almannavarnadeildar vegna eldgoss í Eyjafjallajökli var virkjað í gær. Endurtekin kvikuinnskot hafa verið undir jöklinum allt frá árinu 1994 en undanfarið hefur skjálftavirkni farið vaxandi og verið viðvarandi síðustu sólarhringa.
Verulegar líkur eru því á að ókyrrðin endi með gosi í jöklinum, ef ekki nú þá á næstu árum. Styrkur nýjustu skjálftanna, sem hafa nokkrir verið af stærðinni 2-3 stig, hefur þó gefið Almannavörnum tilefni til að vera í viðbragðsstöðu.
„Auðvitað fylgist maður með þessu, það er greinilega eitthvað að krauma þarna en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því,“ segir Sigurður Þór Þórhallsson, bóndi í Önundarhorni undir Eyjafjöllum.
„Ég treysti því að það sé fylgst vel með þessu og það verði komið hérna og bankað á svefnherbergisgluggann ef við þurfum að fara.“ Sigurður segist ekki hafa leitt hugann sérstaklega að því hvað hann myndi reyna að hafa með sér ef rýmingaráætlunin yrði sett af stað.
„Það verða bara börnin, held ég. Ætli þetta sé ekki bara spurning um að koma sér burtu ef til þess kemur.“