Jóhann Hauksson, blaðamaður á DV, fékkblaðamannaverðlaun ársins en verðlaunin voru veitt í dag. Fékk Jóhann verðlaunin fyrir umfjöllun um fall ríkisstjórnarinnar og þýðingarmiklar fréttaskýringar um mikilvæg þjóðfélagsmál. Þá fékk Rakel Ósk Sigurðardóttir verðlaun Blaðaljósmyndarafélagsins fyrir mynd ársins.
Þórður Snær Júlíusson, blaðamaður Viðskiptablaðsins og áður Morgunblaðsins, fékk verðlaun í flokki rannsóknarblaðamennsku fyrir upplýsandi fréttir og greinaflokka um aflandsfélög og skattaskjól, einkavæðingu bankanna og umfangsmikil viðskipti stórfyrirtækja.
Þá fékk Lóa Pind Aldísardóttir, Stöð 2, verðlaun fyrir bestu umfjöllun ársins fyrir vandaðar og aðgengilegar fréttaskýringar um flókin mál, sem varða almenning miklu, svo sem um fjármál heimilanna og aðild Íslands að ESB.
Samhliða voru afhent verðlaun í blaðaljósmyndarakeppninni Myndir ársins. Rakel Ósk Sigurðardóttir var talin hafa tekið blaðaljósmynd ársins, og myndröð ársins en fréttamynd ársins átti Gunnar Gunnarsson.
Sýning Blaðaljósmyndarafélags Íslands, Myndir ársins 2009, var opnuð í Gerðarsafni í Kópavogi kl. 15. Þar eru til sýnis rúmlega 150 blaðaljósmyndir liðins árs sem valdar hafa verið á sýninguna. Þá var opnuð á neðri hæð safnsins ljósmyndasýning Þorvaldar Arnar Kristmundssonar, sem hann nefnir Náttúra er vörumerki/Nature is brand.
Heimasíða Blaðamannafélags Íslands