Gahr Støre vísar gagnrýni Ólafs Ragnars á bug

Jonas Gahr Støre
Jonas Gahr Støre Reuters

Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, vísar á bug ávirðingum Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, þess efnis að Noregur sem og hin Norðurlöndin hafi ekki gert nægilega mikið til þess að aðstoða Íslendinga út úr efnahagskreppunni. Þetta kemur fram norsku fréttaveitunni ANB.

Þar kemur fram að Ólafur Ragnar hafi í samtali við norska dagblaðið Aftenposten látið hafa eftir sér að lönd Skandinavíu leggi Bretum og Hollendingum lið í því að þvinga Íslendinga til þess að sættast á fremur vondan samning um endurgreiðslur á innstæðum vegna Icesave-málsins.

Jafnframt er haft eftir Ólafi Ragnari að norsk stjórnvöld neiti að veita Íslendingum lán fyrr en búið sé að ganga frá formlegu samkomulagi um Icesave-málið.

„Norðurlöndin hafi öll með beinum eða óbeinum hætti stutt þann þrýsting, sem Bretar og Hollendingar hafa beitt Íslendinga í Icesave-málinu. Það er ekki notalegt að segja þetta en það er samt staðreynd,“ segir Ólafur Ragnar við blaðið.

Jonas Gahr Støre segist algjörlega ósammála forsetanum. „Ég bregst við þessum orðum, en útskýri orð forsetans með því að hann er í erfiðri stöðu sem og landið sjálft,“ segir Støre við norska ríkisútvarpið.

Að mati utanríkisráðherrans þarf Ísland á samningi um langtímalánveitingu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum (AGS) en ekki einstök lán eins og forseti Ísland virðist kalla eftir. Støre bendir á að til þess að Ísland geti fengið lánafyrirgreiðslu hjá AGS verði stjórnvöld að sýna að þau taki fjárhagslegar skuldbindingar landsins alvarlega þar sem slíkt sé í samræmi við ákvæði EES-samningsins

„Íslenska ríkisstjórnin hefur ekki óskað eftir því við norsk stjórnvöld að þau ein veiti Íslendingum lán óháð því hvað gerist í þessu máli öllu.  Það sem Íslendingar hafa beðið um er að við styðjum þá í því að AGS geti fjallað um efnahagsáætlun Íslendinga og áætlun landsins í því að standa við fjárhagslegar skuldbindingar sínar,“ segir Støre.

Talsmenn Kristilega þjóðaflokksins í Noregi hafa gagnrýnt afstöðu norskra stjórnvalda og gagnrýnt þá fyrir framtaksleysi.

„Það er kominn tími til þess að Norðmenn taki frumkvæði í þessu máli og láni Íslendingum óháð kröfum Breta og Hollendinga,“ segir Hans Olav Syversen, talsmaður flokksins um efnahagsmál.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert