Fimm Litháar voru í dag dæmdir í 5 ára fangelsi hver fyrir mansal. Íslendingur, sem einnig var ákærður í málinu, var hins vegar sýknaður í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Dómurinn var kveðinn upp fyrir luktum dyrum en um er að ræða fyrsta dóminn hér á landi þar sem sakfellt er fyrir mansal.
Lögmaður Íslendingsins segir, að málið hafi valdið umbjóðanda sínum miklu fjárhagstjóni og hann gerði fastlega ráð fyrir því að farið verði fram á bætur.
Litháarnir fimm, sem hafa setið í gæsluvarðhaldi frá því í október, voru einnig úrskurðaðir í áframhaldandi gæsluvarðhald í dag eða þar til áfrýjunarfrestur til Hæstaréttar rennur út.
Þeir heita Darius Tomasevskis, Deividas Sarapinas, Gediminas Lisauskas, Sarunas Urniezius og Tadas Jasnauskas. Þeir voru einnig dæmdir til að greiða 19 ára litháiskri stúlku 1,8 milljónir króna í bætur.
Arnar Þór Stefánsson, lögmaður eins Litháans, sagðist reikna með að þeir myndu allir áfrýja dómnum. Hann sagðist telja að dómurinn væri þungur í samanburði við til dæmis dóma í alvarlegum kynferðisbrotamálum gegn börnum og öðrum kynferðisbrotamálum.
Mönnunum var meðal annars gefið að sök að hafa brotið gegn 19 ára litháenskri stúlku og hún hafi verið beitt ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og ótilhlýðilegri aðferð áður en og þegar hún var send til Íslands, sem og í meðförum mannanna, sem tóku við stúlkunni hér á landi, fluttu hana og hýstu í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega.
Rökstuddur grunur liggur fyrir um að mennirnir tengist glæpasamtökum í Litháen. Taldi greiningardeild ríkislögreglustjóra, að stúlkunni og fleiri vitnum stafaði veruleg hætta af mönnunum yrðu þeir látnir lausir.
Dómurinn var kveðinn upp fyrir luktum dyrum en dómhaldið var lokað að kröfu réttargæslumanns litháensku stúlkunnar.