„Umræða um uppbyggingu atvinnulífsins er sláandi karlmiðuð og á sama
tíma á sér stað óvæginn niðurskurður í grunnskólum og dagvistun barna
sem gerir konum enn erfiðara að taka virkan þátt í atvinnulífinu og
uppbyggingarferlinu,“ segir í tilkynningu frá Femínistafélagi Íslands, sem í morgun bauð allri ríkisstjórninni til fundar við sig í en í dag er alþjóðlegur baráttudagur kvenna, 8. mars.
Sex ráðherrar ríkisstjórnarinnar mættu til fundarins. Ríkisstjórnin er handhafi hvatningarverðlaunanna Bleiku steinanna, en í tilkynningu frá Femínistafélaginu segir að fulltrúar þess hafi hrósað ríkisstjórninni og þingflokkunum sem hana styðja fyrir þau störf sem þegar hafa verið unnin, svo sem samþykkt á lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja, aðgerðaáætlun gegn mansali og að kaup á vændi séu nú ólögleg.
Enn sé þó langt í land og voru ráðherrarnir brýndir til dáða, að því er segir í tilkynningunni.
„Femínistafélagið krefst þess að staðinn sé vörður um þjónustu við konur sem hafa orðið fyrir ofbeldi og er þar sérstaklega vísað til neyðarmóttöku vegna nauðgunar á Landspítalanum, Stígamóta og Kvennaathvarfsins. Austurrísku leiðina, sem felur í sér að ofbeldismenn séu fjarlægðir af heimilum en ekki þolendur og börn, á að færa í lög hið fyrsta,“ segir í tilkynningunni.