Haldið nauðugri og seld í vændi

Mjög umfangsmikil rannsókn lögreglu fór fram á mansalsmálinu, sem Héraðsdómur Reykjaness dæmdi í nú síðdegis. Meðal annars fóru lögreglumenn héðan til Litháen til að rannsaka málið og fá staðfesta frásögn 19 ára gamallar litháenskrar stúlku, sem er fórnarlamb í málinu.

Fimm Litháaar voru allir fundnir sekir um að hafa í sameiningu flutt stúlkuna til landsins með blekkingum og hýst hana í þeim tilgangi að hagnýta sér hana kynferðislega. Mennirnir voru dæmdir til að greiða stúlkunni 1,8 milljónir króna í bætur og til að greiða sakarkostnað, sem nemur samtals tæpum 13,4 milljónum króna. Einn Íslendingur, sem einnig var ákærður, var sýknaður.

Í dómi héraðsdóms segir, að eftir þessa athugun sé það mat lögreglu að atburðarásin hafi verið eftirfarandi:

Í september 2008 hvarf stúlkan frá fjölskyldu sinni og var vistuð í íbúð við Ateitisgötu 16 í Panevezys í Litháen þar sem henni var haldið nauðugri, hún seld í vændi, haldið í áfengis- og vímuefnaneyslu og barin til hlýðni.

Hún dvaldi í þessari íbúð fram í janúar 2009 en þá var hún flutt í hús úti í skógi um 15 km fyrir utan Panevezys. Þar var henni haldið nauðugri ásamt fleiri stúlkum og seld í vændi.

Þann 20. febrúar 2009 fann lögreglan í Litháen stúlkuna þar sem hún var læst inni í þessu húsi, allslaus og yfirgefin. Hafði vegfarandi heyrt hróp og köll úr húsinu og tilkynnt lögreglu.

Fór til systur sinnar

Stúlkan fór nú til systur sinnar, Lauru, í Vilnius og dvaldi hjá henni fram í júní 2009. Þá hvarf hún í einn mánuð og kom síðan heim til systur sinnar í fylgd tveggja manna. Annar sagðist vera unnusti hennar og að þau ætluðu að gifta sig. Vildi hann því fá fæðingarvottorð stúlkunnar.

Stúlkan gisti eina nótt hjá systur sinni en daginn eftir komu mennirnir og ætluðu að hafa hana nauðuga á brott með sér. Laura mótmælti því og lagði þá annar mannanna hendur á Lauru en henni tókst að losa sig og hlaupa út og kalla á hjálp. Komst þá styggð að mönnunum og þeir hurfu á braut.

Stúlkan bjó hjá systur sinni í ágúst en í lok mánaðarins flutti hún heim til foreldra sinna en stakk fljótlega af, sennilega af ótta við föður sinn, sem hún sagði vera drykkfelldan og ofbeldishneigðan. 

Bauðst til að útvega vinnu á Íslandi

Í september 2009 var stúlkunni haldið nauðugri á ný í íbúðinni við Ateitisgötu. Um það leyti vingaðist við hana maður, sem hún kallaði Thomas, og bauðst hann til að senda hana til Íslands þar sem vinir hans myndu taka á móti henni og útvega henni vinnu. Stúlkan taldi Thomas ekki hafa neitt illt í huga og hélt hann vera vin sinn.

Thomas og vinkona hans klipptu hár stúlkunnar og lituðu dökkt en hún er ljóshærð. Þá útvegaði Thomas henni falsað vegabréf og flugmiða til Íslands og hingað kom hún í október á síðasta ári.

Á leiðinni í flugvélinni sagðist hún  hafa drukkið of mikið áfengi í flugvélinni og ekki muna eftir sér fyrr en hún vaknaði á spítala. Hún var flutt í húsnæði á vegum félagsmálayfirvalda í Keflavík en hvarf þaðan aðfaranótt 13. október. Sagðist hún hafa hringt í Thomas í Litháen sem lofaði að hringja í vini sína á Íslandi og að þeir myndu sækja hana.

Að minnsta kosti þrír Litháanna fimm, sem í dag voru dæmdir í 5 ára fangelsi fyrir mansal, komu og sóttu stúlkuna. Þegar lögregla spurði stúlkuna af hverju hún hafi yfirgefið íbúðina í Keflavík svaraði hún því til að hún hafi verið skilríkjalaus og með falsað vegabréf og því talið betri kost að hafa samband við landa sína.

Taldi sig ekki eiga neitt val 

Stúlkan sagði að fimm strákar hafi verið í íbúð í Hafnarfirði, þangað sem hún var flutt, og hún hafi þekkt tvo þeirra. Hún hafi verið spurð hvað hún vildi mikla peninga fyrir vinnu sína á Íslandi og tveir mannanna hafi „prófað“ hana og látið hana hafa við sig munnmök. Hún sagðist hafa látið þetta yfir sig ganga þar sem hún hafi ekki átt neitt val.

Þá sagðist stúlkan ekki hafa reynt að fara út úr íbúðinni þar sem að hún hafi verið hrædd og ekkert vitað hvert hún ætti að fara. Hún sagðist á þessari stundu hafa gert sér grein fyrir að hún ætti að stunda vændi á Íslandi.

Sama dag og lögregla uppgötvaði að stúlkan var horfin úr íbúðinni í Keflavík var  lýst eftir henni í fjölmiðlum og jafnframt birtar myndir af sumum Litháanna og þeir eftirlýstir. Þrír þeirra voru handteknir samdægurs en stúlkan fannst á ráfi við Hótel Leif Eiríksson þann 15. október. Sagðist hún hafa verið flutt á hótelið eftir að mennirnir höfðu veirð handteknir.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness

Einn af sakborningunum kemur í réttarsalinn í dag.
Einn af sakborningunum kemur í réttarsalinn í dag. mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert