Samþykkt var á ársfundi Sósíalíska vinstriflokksins í Noregi ályktun þar sem þess er krafist að norska ríkisstjórnin greiði út Íslandslánið án skilyrða. Þetta kemur fram á fréttavef ABC-Nyheter.
Ársfundurinn fór fram í gær, aðeins degi eftir að Íslendingar höfnuðu Icesave-lögunum með rúmlega 93% greiddra atkvæða.
Að mati ársfundar Sósíalíska vinstriflokksins á norska ríkisstjórnin að hætta að gera kröfu um það að Icesave-málið verði útkljáð áður en hún sé reiðubúin að veita Íslendingum hluta þeirra lána sem Norðurlöndin hafa heitið sem lið í endurreisnaráætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.
„Að veita lán í gegnum Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, sem gerir kröfu um að landið samþykki lausn Icesave-málsins, stríðir gegn hagsmunum almennings á Íslandi,“ segir m.a. í ályktun Sósíalíska vinstriflokksins.
„Fjármálaspekúlantar í Bretlandi og Hollandi völdu að taka þátt í markaðsfrjálshyggjunni með því að fjárfesta í Icesave sem var dótturfélag einkafyrirtækisins Landsbankans. Þegar fjármálakerfið, sem þeir tóku þátt í, virkar ekki eins og til var ætlast krefjast þeir þess að allir Íslendingar bæti þeim tapið. Það er ekki ásættanlegt.
Það verður að draga úr lánveitingum frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og vinna gegn kröfu Alþjóðabankans um einkavæðingu, niðurskurð í opinbera kerfinu og að fjármálalífinu sé gefinn laus taumur. Þetta mál er tilvalið til þess að undirstrika sjálfstæði Noregs,“ segir m.a. í ályktuninni.