Sænsk lán háð Icesave

Fredrik Reinfeldt.
Fredrik Reinfeldt. Reuters

Sænski hluti Norðurlandalánapakkans til Íslands er áfram háður því að Íslendingar nái samkomulagi um Icesave-málið við Breta og Hollendinga, að sögn Fredriks Reinfeldts, forsætisráðherra Svíþjóðar. 

„Í okkar augum er það mikilvægt, og ég held að eins sé farið með alla aðila, að Ísland standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar," hefur sænska fréttastofan TT eftir Reinfeldt. 

Norðurlöndin fimm samþykktu á síðasta ári að lána Íslandi samtals 1,8 milljarða evra, jafnvirði 315 milljarða króna, í tengslum við efnahagsáætlun Íslands hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Fyrsti hluti lánsins, 300 milljónir evra, var greiddur út í desember en næsti hluti átti að greiðast þegar annarri endurskoðun efnahagsáætlunarinnar yrði lokið hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Gert var ráð fyrir að sú endurskoðun færi fram í janúar en hún hefur tafist og er það tengt Icesave-málinu. 

Reinfeldt sagði við TT, að hann skildi vel að Íslendingar væru argir yfir því að þurfa að greiða skuldbindingar einkabanka og að fjármálakreppan hefði afhjúpað veikleika í alþjóðlega fjármálakerfinu.  

„Það er ekki hægt að líða, að fjármálamenn stingi hagnaðinum í eigin vasa en skattgreiðendur þurfi að greiða kostnað vegna lélegs hagvaxtar og mikillar skuldasöfnunar. Og það gerðist einmitt á Íslandi." Reinfeldt ítrekaði samt að Ísland verði að standa við alþjóðlegar skuldbindingar sínar. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert