Þyrlan kölluð til leitar

Þyrla Landhelgisgæslunnar.
Þyrla Landhelgisgæslunnar. mbl.is

Þyrla Landhelgisgæslunnar (LHG) hefur verið kölluð út til leitar að bátnum Kristni SH 112. Stjórnstöð LHG lýsti eftir bátnum í morgun. Hann datt út úr sjálfvirkri tilkynningaskyldu í morgun og hefur ekki tekist að ná sambandi við bátinn eftir þeim leiðum sem prófaðar hafa verið.

Togari sá til bátsins í AIS, sjálfvirku auðkenniskefi skipa, í nótt.

Báturinn var með boðtíma kl. 07.20 í morgun. Sjálfvirki tilkynningarbúnaðurinn hætti að senda og kom þá strax viðvörun um það í sjálfvirka tilkynningarkerfinu. Strax var hafist handa við að hafa samband við bátinn eftir tiltækum leiðum, en það hefur ekki borið árangur. 

Kristinn SH 112 er línubátur sem gerður er út frá Ólafsvík. Hann er rétt um 100 brúttórúmlestir að stærð. Báturinn var að veiðum um 101 sjómílu (187 km) suðvestur af Ólafsvík þegar síðast sást til hans. Hann var einskipa þar að veiðum.

Í nótt sást til Kristins SH á AIS-kerfinu um borð í togara sem var á svipuðum slóðum. Síðan sigldi togarinn það langt suður á bóginn að AIS sendingin rofnaði. Veður mun vera gott á þessum slóðum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert