Fimm andategundir eða stokkönd, gargönd, duggönd, skúfönd og æðafugl urpu við Tjörnina í Reykjavík árið 2009. Fuglalífið á Tjörninni er hluti af aðdráttarafli miðborgarinnar. Andapörin voru flest á áttunda ártug 20. aldar en fæst um 1995. Hversu fáir ungar komast á legg, stendur andastofnunum helst fyrir þrifum. Um þetta er fjallað í nýrri vöktunarskýrslu um fuglalíf Tjarnarinnar í Reykjavík sem Umhverfis- og samgöngusvið lætur gera árlega.
Fuglalífið
á Tjörninni er hluti af aðdráttarafli miðborgarinnar en það er ekki sjálfsagt.
Af þeim fimm tegundum sem ala unga á tjörninni stendur
gargöndin verst að vígi og er hún raunar við það að hverfa. Aðeins hefur
fjölgað í stofni stokkanda og er fjölgun Tjarnarfugla frá 1995 fyrst og fremst
henni að þakka.
Í vöktunarskýrslunni eru meðal annars birtar talningar á Tjarnarfuglunum og ungum
þeirra. Fram kemur meðal annars að taumönd sást í fyrsta sinn á Tjörninni í
sumar. Þá bar nokkuð á kríu, til dæmis töldust 76 við Tjörnina 22. maí 2009. Um
30 kríupör reyndu varp í hólmunum og komust nokkrir ungar á legg. 86 álftir
sátu veturinn við Tjörnina og tæplega 300 gæsir.
Efla þarf eftirlit með fuglunum á Tjörninni
Umhirða
og ræktun fuglalífs Tjarnarinnar hófst um 1920 í borgarstjóratíð Knud Zimsens
og á sér því 90 ára sögu. Reykjavíkurborg hefur látið vakta fuglalífið við
Tjörnina frá árinu 1973 til að geta metið aðstæður og gripið til aðgerða.
Þórólfur Jónsson garðyrkjustjóri andmælir því sem segir í skýrslu, Ólafs K.
Nielsen og Jóhanns Óla Hilmarssonar, að borgin sinni ekki fuglalífinu við
Tjörnina.
Þórólfur segir að brugðist hafi verið við ábendingum skýrsluhöfunda eftir
föngum. Næsta sumar verða til að mynda sett upp fræðsluskilti um friðlandið í
Vatnsmýrinni og tilraun gerð til að flytja síkjamara í Tjörnina en það bætir
súrefnisinnihald hennar. Þá halda starfmenn aftur af hvönninni í Þorfinnshólma
svo dæmi sé tekið.
Skýrsluhöfundar hvetja borgina til að efla ræktunarstarf og eftirlit með
fuglafánunni við Tjörnina. Þórólfur segir Umhverfis- og samgöngusvið hafi gert
ráðstafanir til að ráða í sumar sérstakan umsjónarmann með fuglalífinu á
Tjörninni. Slíkt starf tíðkaðist á árum áður og gekk undir heitinu: andapabbi.
"Nú mætti kalla það andaforeldri," segir hann.
Mánaðaleg mengunarsýni tekin
Heilbrigðiseftirlit
Reykjavíkur sinnir einnig Tjörninni og hefur undanfarin misseri tekið mánaðaleg
sýni í Vatnsmýrartjörn til að mæla hitastig og fjölda örvera í leit að uppruna
mengunar. Í fyrra var með þessu móti komið í veg fyrir mengun sem barst frá
húsnæði í Skógarhlíð. Þrátt fyrir úrbætur er enn grunur um rangar tengingar í
lagnakerfi og að einhver mengun geti borist í Tjörnina í gegnum það.
Mengunin í Tjörninni er svipuð jafnt sumar sem vetur og því þykir ljóst að ekki
sé eingöngu um mengun af fuglum að ræða, því ef svo væri yrði mengunin
árstíðabundin. Heilbrigðiseftirlitið mun í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur
halda áfram leit að uppsprettu mengunar í Tjörninni meðal annars með sýnatökum.
Markmiðið er að finna þá staði og upptök sem valda mengun í Tjörninni og laga
þá.
Skýrslan um fuglalíf Tjarnarinnar var kynnt í dag, 9. mars, fyrir umhverfis- og
samgönguráði Reykjavíkurborgar.