Samson greiddi Búnaðarbankalánið árið 2005

Lán að upphæð 48,3 milljónir dala,  sem Samson eignarhaldsfélag fékk hjá Búnaðarbankanum árið 2003 til að greiða hluta af kaupverði Landsbankans, var að fullu greitt með áföllnum vöxtum á gjalddaga í apríl árið 2005. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá fyrrverandi eigendum Samsonar.  

Í yfirlýsingunni segir, að Samson hafi greitt íslenska ríkinu árið 2003 að fullu fyrir 45,8% hlut í Landsbanka Íslands samtals rúmlega 139 milljónir Bandaríkjadala.

Þá segir að fjárframlag eigenda Samsonar með eigin fé erlendis hafi numið 65% af heildarfjárhæð viðskiptanna en aðeins hafi verið gerð krafa um 35% eigið fé. 

Lán sem Samson fékk frá Búnaðarbanka Íslands árið 2003 upp á 48,3 milljónir dala rann til að greiða aðra greiðslu af þremur fyrir eignarhlutinn í Landsbankanum. Í yfirlýsingunni segir, að Samson hafi greitt umrætt bankalán að fullu með áföllnum vöxtum á gjalddaga þann 29. apríl 2005, samtals að fjárhæð 51,2 milljónir Bandaríkjadala.

Skuld í innheimtu 

Nýja Kaupþing krafðist þess í síðasta ári, að feðgarnir Björgólfur Guðmundsson og Björgólfur Thor Björgólfsson greiddu bankanum skuld við bankann, sem þeir væru í persónulegri ábyrgð fyrir og sem þá nam um 4,9 milljörðum króna auk dráttarvaxta. Var fullyrt í fjölmiðlum og því ekki mótmælt af hálfu bankans eða Samsonar þá, að skuldin væri vegna kaupa Samsonar á Landsbankanum árið 2003 en Samson er nú gjaldþrota. Á móti hefðu Björgólfsfeðgar lagt fram tilboð um að greiða helming af skuldinni en á það féllst bankinn ekki og setti skuldina í innheimtuferli.

Í yfirlýsingu frá fyrrum eigendum Samsonar nú segir, að félagið hafi átt í frekari lánaviðskiptum við Kaupþing eftir sameiningu þess og Búnaðarbankans vegna ýmissa annarra fjárfestinga. Tvö lán hafi verið tekin árin 2004 og 2005 sem voru að fullu greidd fyrir mitt ár 2007.

„Í desember 2005 tók Samson lán að fjárhæð 3,8 milljarðar króna. Tryggingar voru teknar í hlutabréfum félagsins auk sjálfskuldarábyrgðar. Hluti fjárhæðarinnar var greiddur á gjalddaga í desember 2007 og var þá gerður nýr lánasamningur um eftirstöðvar með hærri vöxtum. Áfram stóðu veðbönd á hlutabréfum félagsins og sjálfskuldarábyrgð. Gjalddagi þessa nýja láns var 10.desember 2008 en áður en sá dagur rann upp, eða í október sama ár, hafði ríkið yfirtekið hlut Samsonar í Landsbankanum sem var helsta eign félagsins og Samson hafði verið tekið til gjaldþrotaskipta. Það er af þessu seinni tíma láni sem Kaupþing, - nú Arion banki, hefur krafið ábyrgðaraðila um greiðslur og er það alveg óskylt kaupum á hlutabréfum Landsbankanum fyrir sjö árum. Viðræður standa yfir um uppgjör þeirrar kröfu," segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert