Samningafundi flugumferðastjóra og viðsamjenda lauk hjá ríkisáttasemjara nú fyrir stundu án árangurs. Er því ljóst að fyrsta verkfall flugumferðastjóra hefst klukkan 07:00 í fyrramálið eins og boðað hafði verið.
Verkfallið mun standa í fjórar klukkustundir eða til klukkan 11:00 og má gera ráð fyrir að bæði innanlands- og utanlandsflug raskist á meðan. Að sögn Guðjóns Arngrímssonar, upplýsingafulltrúa Icelandair, má búast við því að öll morgunflug til Evrópu tefjist framyfir klukkan 11 á morgun. Hann segist vonast til þess að keðjuverkunaráhrif verði lítil en þó sé ekki ólíklegt að einhverjar raskanir verði á móti á flugferðum frá Evrópu síðdegis. Erfitt sé hinsvegar að spá um framhaldið, en Icelandair hafi vonast til þess að ekkert yrði af verkfalli.
Þeir farþegar sem eiga bókað flug til Evrópu í fyrramálið geta fylgst með brottfarartímum á textavarpinu og á síðu Icelandair.
Næsti samningafundur hefur verið boðaður hjá Ríkissáttasemjara kl. 13 á morgun.