Verkfall flugumferðarstjóra mun að líkindum hafa áhrif á hátt í fimmtán ferðir á vegum Flugfélags Íslands í dag, segir Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri félagsins. Í þeim vélum eru bókaðir um fjögur hundruð farþegar.
Frá klukkan sjö til ellefu, meðan verkfallið stendur yfir, átti að fara átta ferðir á vegum flugfélagsins, með um þrjú hundruð farþega. Vélarnar áttu að fara frá Reykjavíkurflugvelli til Ísafjarðar, Egilsstaða, Akureyrar og Vestmannaeyja, og aftur til baka.
Gera má hins vegar ráð fyrir að verkfallið hafi áhrif á fleiri vélar síðar um daginn, bendir Árni á.
Hann segist vita til þess að einhverjir farþegar hafi hætt við að fljúga, og bendir á að forsendur ferða séu brostnar fyrir þá sem eru t.d. á leið til funda. Flugfélagið endurgreiðir fargjöldin þeim sem hætta við, segir Árni, þótt því beri ekki lagaleg skylda til þess.
Þá felst aukinn kostnaður í því fyrir flugfélagið að það var búið að skipuleggja áhafnir. „Við gætum mögulega þurft að kalla fleiri til vinnu í dag,“ segir Árni.