Verkfall flugumferðarstjóra mun að líkindum hafa áhrif á ferðir um fimm þúsund farþega hjá Icelandair í dag, segir Guðjón Arngrímsson, talsmaður flugfélagsins. Flugumferðarstjórar fóru í fjögurra klukkustanda verkfall klukkan sjö í morgun.
Fimm vélar Icelandair áttu að fara frá Keflavíkurflugvelli milli klukkan hálf átta og níu, en þær áttu að fljúga til Norðurlandanna og Bretlands. Í þeim vélum eru bókaðir um átta hundruð farþegar. Verfallið mun einnig valda seinkun á vélum frá Evrópu til Íslands, og loks væntanlega hafa keðjuverkandi áhrif á flug til Ameríku síðdegis.
Ekki náðist í forsvarsmann Icesland Express, en engin vél flugfélagsins átti að fljúga á þeim tíma sem verkfallið stendur yfir.
Hefur þetta áhrif á einhvern sem þú þekkir - einhvern sem á pantað tengiflug. Hafðu samband við mbl.is á netfrett@mbl.is